Ferill 606. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1246  —  606. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um viðbragðsáætlun vegna eldsvoða í jarðgöngum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er til samræmd viðbragðsáætlun vegna eldsvoða í jarðgöngum, einkum þeim sem eru með eldfimum klæðningum? Óskað er eftir upplýsingum sundurliðuðum eftir jarðgöngum.

    Í eftirfarandi töflu eru talin upp veggöng á Íslandi. Dýrafjarðargöng hafa ekki verið opnuð fyrir umferð. Gert er ráð fyrir að það verði gert í haust.

Vegur Ár Lengd
Göng nr. opnuð m
1 Arnardalshamar 61 1949 30
2 Strákagöng 76 1967 800
3 Múlagöng 82 1990 3.400
4 Breiðadals- og Botnsheiði 60/65 1996 9.113
5 Hvalfjarðargöng 1 1998 5.770
6 Fáskrúðsfjarðargöng 96 2005 5.850
7 Almannaskarðsgöng I 1 2005 1.308
8 Héðinsfjarðargöng 76 2010 3.650
9 Héðinsfjarðargöng II 76 2010 6.910
10 Bolungarvíkurgöng 61 2010 5.400
11 Húsavíkurgöng 857 2017 990
12 Norðfjarðargöng 92 2017 7.908
13 Vaðlaheiðargöng 1 2018 7.490
14 Dýrafjarðargöng 60 2020 5.600
64.219

    Ekki er gerð samræmd viðbragðsáætlun heldur er gerð viðbragðsáætlun fyrir hver göng fyrir sig sem tekur mið af aðstæðum viðkomandi ganga. Til er viðbragðsáætlun fyrir öll göng utan Arnardalshamarsganga og Strákaganga. Unnið er að gerð viðbragðsáætlunar fyrir Strákagöng og verður hún tilbúin í sumar. Göngin eru komin til ára sinna og þarf að gera á þeim endurbætur. Sett verður upp sjálfvirkt stjórnkerfi sem hleypir áfram umferð í göngunum en lokar þeim fyrir gagnstæðri átt ef stór bíll kemur þaðan að þeim. Þá verður hægt með fjarstýringu frá stjórnstöð að setja upp einstefnuumferð ef til dæmis tímabundnar aðstæður krefjast þess. Ekki er talin þörf á að gera viðbragðsáætlun fyrir göngin um Arnardalshamar vegna þess hve stutt þau eru (30 m).
    Vegagerðin hefur nýlega fengið það verkefni að reka göngin um Húsavíkurhöfða og er verið að ganga frá drögum að viðbragðsáætlun. Viðbragðsáætlun Vaðlaheiðarganga er á forræði Vaðlaheiðarganga hf. Ekki er hafin gerð viðbragðsáætlunar fyrir Dýrafjarðargöng en undirbúningsfundir hafa verið haldnir með slökkviliði og lögreglu og búnaður ganganna kynntur.
    Vegagerðin gerir viðbragðsáætlun fyrir veggöng í samráði við slökkvilið og lögreglu. Í samræmi við reglugerð nr. 614/2004 um brunavarnir í samgöngumannvirkjum skal brunahönnun samþykkt af byggingaryfirvöldum viðkomandi sveitarfélags. Viðbragðsáætlun telst hluti brunahönnunar. Í viðbragðsáætlun er gerð grein fyrir búnaði ganga. Viðbragðsáætlun er send umhverfisnefnd sveitarfélags til kynningar og samþykktar.